1.5.2007 | 15:15
Varðandi reykingar á veitingastöðum.
Ég var staddur í Belfast á Írlandi fyrir stuttu. Þar fór fram fótboltaleikur á sama tíma og heimamenn báru sigur úr býtum. Það skipti engum togum að allir skemmtistaðir og barir troðfylltust af fólki, og auðvitað ákvað ég að skella mér í fjörið og stemminguna, svona mér til gamans.
Þegar ég var búinn að vera í rúman klukkutíma inni á einum vinsælasta stað borgarinnar og búinn að teiga tæpa 2 Guinnes tók ég eftir því að enginn var reykjandi. Þá mundi ég skyndilega eftir því að það er búið að banna reykingar á skemmtistöðum, veitingahúsum og kaffihúsum á Írlandi.
Ég tók að spyrja heimamenn hvernig þetta hafi nú allt gengið og ekki stóð á viðbrögðunum. Nánast allir voru samstíga og í þokkalegri sátt við þetta. Veitingamenn voru hræddir um að missa spón úr sínum aski, en það virtist ekki koma þeim illa þar sem aðsókn hefur aukist á pöbbana frekar en að dragast saman.
Þó kann vel að vera að menn fari meira á pöbbana af öðrum ástæðum, svo sem vegna góðæris eðan annars, en í það minnsta er fullt af fólki sem fer að djamma í dag sem fór ekki áður vegna reyksins.
Ég fór á nokkra staði, og á 2 hótelbari, enda lifði stemmingin fram eftir nóttu, og hvergi varð ég var við að nokkur maður reyndi að brjóta þessa nýju reglu.
Fólk röltir út, reykir, og röltir inn aftur með bros á vör og þetta gengur mjög smurt fyrir sig að því er mér sýndist. Þeir búa reyndar við betra veður en við hér á Fróni, en það verður fróðlegt að sjá hvernig þetta mun ganga hér. Þá má taka það fram að mun fleiri reykja á Írlandi en á Íslandi sé mið tekið af höfðatölu.
Því segi ég, það verður fróðlegt að sjá hvað gerist hér heima. Skyldum við vera eins jákvæð og frændur okkar Írar þegar á harðbakkann slær?
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.