23.9.2008 | 10:05
28.05.2007 Dagur 6. Annar í Hvítasunnu
Við sváfum á Hóteli í New Jersey og vorum gjörsamlega örþreyttir þegar við komum um nóttina, enda búnir að ganga Manhattan þvera og endilanga.
Þegar við fórum á fætur brá okkur í brún. Við fundum ekki bílinn okkar. Við fórum því í andyrið og spurðumst fyrir, og þá færiðst góðlátlegt bros yfir mannskapnn í Lobby-inu.
Við höfðum lagt bílnum við aðalinnganginn, farið upp með dótið okkar og gleymt að leggja bílnum í stæði. Bíllinn var læstur og enginn vissi hverjum hann tilheyrði.
hann var því dreginn burt á svokallað Tow Away Zone. Við þrftum að taka taxa á næstu lögreglustöð til fá leiðbeiningar hvernig við fengjum bílinn aftur.
Þetta var lööööng leið. þegar við loks komum á staðinn ætluðum við aldrei að finna innganginn inn á þessa lögreglustöð. Löbbuðum nánast allan hringinn því hún var eins og fífl í laginu.
Þegar við komum inn blasti við okkur búr með skotheldu gleri og stórt skilti á veggnum sem bannaði myndatöku innandyra.
Þegar við höfðum gert grein fyrir okkur sögðu þau okkkur að fara á Tow Away Zone svæðið og fá pappírana frá bílaleigunni úr bílnum og koma með þá. Ég fékk einhvernskonar leyfisbréf.
Við fórum með öðrum leigubíl sem safnaði saman farþegum og skutlaði á víxl. Bíllinn var að hruni kominn og viðbjóðslega skítugur.
Þegar við komum á svæðið fór ég inn í einhvernskonar vinnuskúr sem var að mestu smíðaður úr mótatimbri, sýndi leyfisbréf frá lögreglunni og sagði að ég ætti að ná í pappíra í bílinn.
Það var á mörkunum að konan í afgrfgreiðslunni skildi mig, en hún var spönskumælandi. Hún skipaði mér að drulla mér út í port og tala við "old man" þar um leið og hún lét mig hafa einhverja pappíra. þegar ég kom út sá ég strax eldri mann og fór til hans. Í sömu andrá kallaði hún í kerfið, Car 1501... Car 1501... Paperwork...
Gamli maðurinn sá leyfisbréfið hjá mér númer 1501 og sá að ég var með lyklana. hann sagði mér að ég mætti taka bílinn og málið væri afgreitt. Ég tók bílinn og pikkaði Smára upp fyrir utan hliðið.
Við fórum síðan aftur upp á lögreglustöðina, og kom Garmin GPS-tækið sér vel til að rata til baka. Ég hefði ekki viljað keyra þetta eftir korti. Eintómir handónýtir vegir og slóðar, ónýtir bílar og drullupakk út um allt. Algert sóðahverfi.
Þegar ég kom inn sá lögreglan að ég var á bílnum. þeir létu mig hafa fleiri pappíra, stimpluðu aðra og sögðu mér að bíða. Svo biðum við í drykklanga stund, svona tæpa 2 tíma eftir því að niðurstaða lægi fyrir.
Það væsti svo sem ekkert um okkur þar sem þarna var príðis veður. Skáhalt á móti stöðinni var austurlenskur veitingastaður svo við fórum þar inn og fengum okkur vel að éta, enda betra að nýta tímann. klukkan var farin að ganga fjögur og dagurinn þegar handónýtur út af þessum klaufaskap.
Á veitingastaðnum fengum við glæsilega rifjasteik. Eina þá bestu sem ég hef smakkað. á myndinni sést skamtur fyrir einn, og þarna var smári búinn að éta sig saddann. Ég kláraði minn skamt :) en sá svolítið eftir því þar sem mér var illt í maganum af ofáti næstu tvo tímana eða svo.
Þegar við fórum aftur inn á stöðina var okkur sagt að öll mál væru leyst, ég ætti að greiða ákveðna færslu upp á $50 með kortinu mínu, en ég gæti það ekki fyrr en að hálfum mánuði liðnum.
Ég ákvað því að gera það heima en komst síðar að því að ég átti líka að borga á dráttarbílasvæðinu, og átti í raun ekki að fá bílinn afhentan. Ég átti að fara með pappírana úr bílnum á lögreglustöðina, koma aftur og sækja bílinn og fara svo aftur á lögreglustöðina til að klára málið.
Á leið okkar yfir á Manhattan sáum við furðulegar byggingar í smíðum. það var engu nær en þær væru smíðaðar úr pappír. Einhverjar umbúðaspónaplötur utan um timburgrind sem var ekki traustvekjandi að sjá. Svo þegar búið er að fullklára kofann er sett gerfi múrsteinaklæðning utan á það þannig að það virðist vera bara þokkalegt.
Ég er nokkuð klár á að þetta stenst ekki stranga byggingastaðla Íslands og sennilega væri víða bannað að reisa svona hús. Ekki síst upp á þrjár hæðir.
Er það ekki einmitt vegna svona fíflaskapar sem heilu borgirnar fjúka út í veður og vind þegar fellibylir og skýstrókar geysa?
Svona lítur húsið semsagt út á síðari byggingastigum. Múrsteinsklæðningin er ótrúlega raunveruleg svona úr fjarska. Maður sér ýmislegt skrítið í henni Ameríku.
Svo er annað. Þetta hverfi er einskonar lægri millistéttahverfi. Þarna er byggt ódýrt. Ekki víst að eftirlitið sé upp á marga fiska heldur. Verkamenn eru ekki með hjálma, ekki í vestum og ekki í skóm með stáltá eða stálbotn. Þarna ríkja allt aðrir staðlar en hér heima og eftirliti er mjög ábótavant að mínu mati.
Þó sáum við fullt af flottum og fallegum húsum í reyndar misgóðu ástandi. þau eru þó flest frekar gömul, enda var þetta byggingareitur inni í miðju gömlu íbúðahverfi. Sennilega voru eldri og jafnvel lægri hús látin víkja fyrir þessum blokkum.
Þegar við komum yfir til Queens rákumst við á verkstæði fyrir tilviljun þar sem þessi gullfallegi Sporster árg 2002 var til sölu fyrir lítið fé. Náunginn er með sambönd við aðila sem kaupir hjól og bíla af uppboðum og bauð okkur að versla í gegnum sig hefðum við áhuga.
því miður gátum við ekki tekið þennan Sporster, enda mótorhjóla-kaupa-kvótinn orðinn fullur að svo stöddu.
Þó er gott að hafa slík sambönd á takteinum fari maður seinna í slíka ferð, en hjólin fara á brot af raunvirði á slíkum uppboðum. Um er að ræða stolin farartæki, tryggingasvik, alls kyns tjón, svo sem vatnstjón og hagl, gjaldþrot og svo framvegis.
Queens er líka skuggaleg á köflum. Þetta er dæmigerð verslunargata í þeim gífurlegu þrengslum sem þarna eru. Lestin er á brú sem liggur fyrir ofan veginn og fer á sirka fimm mínútna fresti með þvílíkum látum að það er varla vært þarna fyrir braki, smellum, ískri og niði.
Það er svo sem ekkert að því að vera þarna um hábjarnan dag í glampandi sólskyni, en þegar rökkva tekur, þá er betra að halda sig annarsstaðar, ekki síst ef maður er snóhvítur evrópubúi í nýlegum fötum.
Þarna eru allir sem við sáum tiltölulega dökkir á hörund með svart hár. Maður er eins og flasskubbur við hliðina á þeim og vekur þvílíka athygli.
Daginn eftir fórum við svo heim. Hjólin voru komin á flugvöllinn og allt í gúddí. Við vorum með allt of mikinn farangur, 7 ferðatöskur upp á tæð 100kg. handfarangur upp á 38kg, og reiðhjól. Ég lenti í næstum klukkutíma þrasi á vellinum áður en mér tókst að sannfæra þau um að ég ætti ekki að borga yfirvigt. Ég veit ekki alveg hvernig ég fór að því en ég held að þau hafi einfaldlega gefist upp á röflinu í mér .
Þarna er Smári á nýja Soft-Tail-inum sínum á vellinum í Keflavik við komu hjólanna til landsins. Stórkostlegt mótorhjól. Smári ákvað síðar að halda hjólinu en ég ákvað að eiga bláa Low Riderinn sem er á hinu brettinu.
Hér eru fyrstu tvö hjólin komin á kerruna. Low Riderinn minn er nú í forgrunni, en kerruna keypti ég á Florida árið 2003 þegar ég flutti inn þrjú hjól frá Orlando. Stórkostleg kerra sem er hægt að brjóta saman og geyma upp á endann þegar hún er ekki í notkun.
Bláa hjóli er tjónað, en akkúrat á þeim stöðum sem ég ætla að skipta út hvort eð er. Gaflabrú, Tankur bretti, stefniljós og speglar eru skemmd.
Það verður glæsilegt þegar það er orðið mosagrænt með Wide-Glide framenda og Omega ljósi að framan.
Fimm dögum síðar komu svo hin þrjú hjólin og voru það Gult Buell Racer Firebolt árgerð 2005, Harley Ferguson Sporster 1200 árgerð 2005 og Suzuki Boulevard S50 (Intruder 800) árgerð 2006.
Eins og þið sjáið þá leiðist mér ekkert mjög mikið eftir vel heppnaða og árangursríka viðskiptaferð.
Það er skemmst frá því að segja að hjólin seldust heldur rólega en fóru á endanum. Við vorum svo sem ekkert að pína verðið mikið niður heldur. Vildum gjarnan fá eitthvað út úr þessu. Í það minnsta að fá ferðina greidda til baka, og það má segja að það hafi tekist.
Þarna eru svo hjólin komin heim til mín í Garðabæinn fyrir utan hjóli hans Smára. Það er svo sem ekki leiðinlegt að hafa svona safn í innkeyrslunni hjá sér. Verst að geta ekki haldið þeim öllum.
Það er alveg klárt að þetta er ekki síðasta ferðin mín til USA til að kaupa eitthvað sniðugt til að selja. Þetta er kannski ekki mikið gróðabrölt, en engu að síður, þá er þetta svo gaman að það fyrirfinnst varla annað eins, í það minnsta ef maður hefur mikinn áhuga á mótorhjólum.
Það má reyndar segja að ég trjóni þar á toppnum ásamt fáum útvöldum hvar slíkan áhuga varðar sem áhuga á mótorhjólum. Það er nánast öfgakennt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.