28.05.2007 Dagur 6. Annar í Hvítasunnu

Smári að spyrja um bílinnVið sváfum á Hóteli í New Jersey og vorum gjörsamlega örþreyttir þegar við komum um nóttina, enda búnir að ganga Manhattan þvera og endilanga.

Þegar við fórum á fætur brá okkur í brún. Við fundum ekki bílinn okkar. Við fórum því í andyrið og spurðumst fyrir, og þá færiðst góðlátlegt bros yfir mannskapnn í Lobby-inu.

Við höfðum lagt bílnum við aðalinnganginn, farið upp með dótið okkar og gleymt að leggja bílnum í stæði. Bíllinn var læstur og enginn vissi hverjum hann tilheyrði.

hann var því dreginn burt á svokallað Tow Away Zone. Við þrftum að taka taxa á næstu lögreglustöð til fá leiðbeiningar hvernig við fengjum bílinn aftur.

 

Lögreglustöðin í Elizabeth, New JerseyÞetta var lööööng leið. þegar við loks komum á staðinn ætluðum við aldrei að finna innganginn inn á þessa lögreglustöð. Löbbuðum nánast allan hringinn því hún var eins og fífl í laginu.

Þegar við komum inn  blasti við okkur búr með skotheldu gleri og stórt skilti á veggnum sem bannaði myndatöku innandyra.

Þegar við höfðum gert grein fyrir okkur sögðu þau okkkur að fara á Tow Away Zone svæðið og fá pappírana frá bílaleigunni úr bílnum og koma með þá. Ég fékk einhvernskonar leyfisbréf.

Við fórum með öðrum leigubíl sem safnaði saman farþegum og skutlaði á víxl. Bíllinn var að hruni kominn og viðbjóðslega skítugur.

 

Lögreglubíll í ElizabehtÞegar við komum á svæðið fór ég inn í einhvernskonar vinnuskúr sem var að mestu smíðaður úr mótatimbri, sýndi leyfisbréf frá lögreglunni og sagði að ég ætti að ná í pappíra í bílinn.

Það var á mörkunum að konan í afgrfgreiðslunni skildi mig, en hún var spönskumælandi. Hún skipaði mér að drulla mér út í port og tala við "old man" þar um leið og hún lét mig hafa einhverja pappíra. þegar ég kom út sá ég strax eldri mann og fór til hans. Í sömu andrá kallaði hún í kerfið, Car 1501... Car 1501... Paperwork...

Gamli maðurinn sá leyfisbréfið hjá mér númer 1501 og sá að ég var með lyklana. hann sagði mér að ég mætti taka bílinn og málið væri afgreitt. Ég tók bílinn og pikkaði Smára upp fyrir utan hliðið.

 

Dómshúsið í ElizabethVið fórum síðan aftur upp á lögreglustöðina, og kom Garmin GPS-tækið sér vel til að rata til baka. Ég hefði ekki viljað keyra þetta eftir korti. Eintómir handónýtir vegir og slóðar, ónýtir bílar og drullupakk út um allt. Algert sóðahverfi.

Þegar ég kom inn sá lögreglan að ég var á bílnum. þeir létu mig hafa fleiri pappíra, stimpluðu aðra og sögðu mér að bíða. Svo biðum við í drykklanga stund, svona tæpa 2 tíma eftir því að niðurstaða lægi fyrir. 

Það væsti svo sem ekkert um okkur þar sem þarna var príðis veður. Skáhalt á móti stöðinni var austurlenskur veitingastaður svo við fórum þar inn og fengum okkur vel að éta, enda betra að nýta tímann. klukkan var farin að ganga fjögur og dagurinn þegar handónýtur út af þessum klaufaskap.

 

Smári með rifjasteikinaÁ veitingastaðnum fengum við glæsilega rifjasteik. Eina þá bestu sem ég hef smakkað. á myndinni sést skamtur fyrir einn, og þarna var smári búinn að éta sig saddann. Ég kláraði minn skamt :) en sá svolítið eftir því þar sem mér var illt í maganum af ofáti næstu tvo tímana eða svo.

Þegar við fórum aftur inn á stöðina var okkur sagt að öll mál væru leyst, ég ætti að greiða ákveðna færslu upp á $50 með kortinu mínu, en ég gæti það ekki fyrr en að hálfum mánuði liðnum.

Ég ákvað því að gera það heima en komst síðar að því að ég átti líka að borga á dráttarbílasvæðinu, og átti í raun ekki að fá bílinn afhentan. Ég átti að fara með pappírana úr bílnum á lögreglustöðina, koma aftur og sækja bílinn og fara svo aftur á lögreglustöðina til að klára málið. 

 

PappahúsÁ leið okkar yfir á Manhattan sáum við furðulegar byggingar í smíðum. það var engu nær en þær væru smíðaðar úr pappír. Einhverjar umbúðaspónaplötur utan um timburgrind sem var ekki traustvekjandi að sjá. Svo þegar búið er að fullklára kofann er sett gerfi múrsteinaklæðning utan á það þannig að það virðist vera bara þokkalegt.

Ég er nokkuð klár á að þetta stenst ekki stranga byggingastaðla Íslands og sennilega væri víða bannað að reisa svona hús. Ekki síst upp á þrjár hæðir.

Er það ekki einmitt vegna svona fíflaskapar sem heilu borgirnar fjúka út í veður og vind þegar fellibylir og skýstrókar geysa?

 

MúrsteinsklæðninginSvona lítur húsið semsagt út á síðari byggingastigum. Múrsteinsklæðningin er ótrúlega raunveruleg svona úr fjarska. Maður sér ýmislegt skrítið í henni Ameríku.

Svo er annað. Þetta hverfi er einskonar lægri millistéttahverfi. Þarna er byggt ódýrt. Ekki víst að eftirlitið sé upp á marga fiska heldur. Verkamenn eru ekki með hjálma, ekki í vestum og ekki í skóm með stáltá eða stálbotn. Þarna ríkja allt aðrir staðlar en hér heima og eftirliti er mjög ábótavant að mínu mati.

Þó sáum við fullt af flottum og fallegum húsum í reyndar misgóðu ástandi. þau eru þó flest frekar gömul, enda var þetta byggingareitur inni í miðju gömlu íbúðahverfi. Sennilega voru eldri og jafnvel lægri hús látin víkja fyrir þessum blokkum.

 

Harley Ferguson Sporster árg 2002Þegar við komum yfir til Queens rákumst við á verkstæði fyrir tilviljun þar sem þessi gullfallegi Sporster árg 2002 var til sölu fyrir lítið fé. Náunginn er með sambönd við aðila sem kaupir hjól og bíla af uppboðum og bauð okkur að versla í gegnum sig hefðum við áhuga.

því miður gátum við ekki tekið þennan Sporster, enda mótorhjóla-kaupa-kvótinn orðinn fullur að svo stöddu.

Þó er gott að hafa slík sambönd á takteinum fari maður seinna í slíka ferð, en hjólin fara á brot af raunvirði á slíkum uppboðum. Um er að ræða stolin farartæki, tryggingasvik, alls kyns tjón, svo sem vatnstjón og hagl, gjaldþrot og svo framvegis.

 

img_0196.jpgQueens er líka skuggaleg á köflum.  Þetta er dæmigerð verslunargata í þeim gífurlegu þrengslum sem þarna eru. Lestin er á brú sem liggur fyrir ofan veginn og fer á sirka fimm mínútna fresti með þvílíkum látum að það er varla vært þarna fyrir braki, smellum, ískri og niði.

Það er svo sem ekkert að því að vera þarna um hábjarnan dag í glampandi sólskyni, en þegar rökkva tekur, þá er betra að halda sig annarsstaðar, ekki síst ef maður er snóhvítur evrópubúi í nýlegum fötum.

Þarna eru allir sem við sáum tiltölulega dökkir á hörund með svart hár. Maður er eins og flasskubbur við hliðina á þeim og vekur þvílíka athygli.

 

img_01_-.jpgDaginn eftir fórum við svo heim. Hjólin voru komin á flugvöllinn og allt í gúddí. Við vorum með allt of mikinn farangur, 7 ferðatöskur upp á tæð 100kg. handfarangur upp á 38kg, og reiðhjól. Ég lenti í næstum klukkutíma þrasi á vellinum áður en mér tókst að sannfæra þau um að ég ætti ekki að borga yfirvigt. Ég veit ekki alveg hvernig ég fór að því en ég held að þau hafi einfaldlega gefist upp á röflinu í mér Smile.

Þarna er Smári á nýja Soft-Tail-inum sínum á vellinum í Keflavik við komu hjólanna til landsins. Stórkostlegt mótorhjól. Smári ákvað síðar að halda hjólinu en ég ákvað að eiga bláa Low Riderinn sem er á hinu brettinu.

 

Hallarnir á kerrunniHér eru fyrstu tvö hjólin komin á kerruna. Low Riderinn minn er nú í forgrunni, en kerruna keypti ég á Florida árið 2003 þegar ég flutti inn þrjú hjól frá Orlando. Stórkostleg kerra sem er hægt að brjóta saman og geyma upp á endann þegar hún er ekki í notkun.

Bláa hjóli er tjónað, en akkúrat á þeim stöðum sem ég ætla að skipta út hvort eð er. Gaflabrú, Tankur bretti, stefniljós og speglar eru skemmd.

Það verður glæsilegt þegar það er orðið mosagrænt með Wide-Glide framenda og Omega ljósi að framan.

 

Seinni hjólin komin í höfnFimm dögum síðar komu svo hin þrjú hjólin og voru það Gult Buell Racer Firebolt árgerð 2005, Harley Ferguson Sporster 1200 árgerð 2005 og Suzuki Boulevard S50 (Intruder 800) árgerð 2006.

Eins og þið sjáið þá leiðist mér ekkert mjög mikið eftir vel heppnaða og árangursríka viðskiptaferð. 

Það er skemmst frá því að segja að hjólin seldust heldur rólega en fóru á endanum. Við vorum svo sem ekkert að pína verðið mikið niður heldur. Vildum gjarnan fá eitthvað út úr þessu. Í það minnsta að fá ferðina greidda til baka, og það má segja að það hafi tekist.

 

Innkeyrslan hjá mérÞarna eru svo hjólin komin heim til mín í Garðabæinn fyrir utan hjóli hans Smára. Það er svo sem ekki leiðinlegt að hafa svona safn í innkeyrslunni hjá sér. Verst að geta ekki haldið þeim öllum.

Það er alveg klárt að þetta er ekki síðasta ferðin mín til USA til að kaupa eitthvað sniðugt til að selja. Þetta er kannski ekki mikið gróðabrölt, en engu að síður, þá er þetta svo gaman að það fyrirfinnst varla annað eins, í það minnsta ef maður hefur mikinn áhuga á mótorhjólum.

Það má reyndar segja að ég trjóni þar á toppnum ásamt fáum útvöldum hvar slíkan áhuga varðar sem áhuga á mótorhjólum. Það er nánast öfgakennt. Grin

 


27.05.2007 Dagur 5. Hvítasunnudagur í New York

IMG_0109Við brunuðum sem leið lá til New York City og vorum ekkert að flýta okkur á fætur. Það var hvort eð er Hvítasunnudagur og ekki margt hægt að stússa.

en engu að síður ókum við í rúman klukkutíma, á 110 km/h og allan tímann í þéttbýli. Fáránlegt.

Borgin telur í dag meira en 16 milljón mans, en New York svæðið telur 24 milljónir manna. Sem dæmi eru allir Íslendingar um 300.000 manns en á flugvallarsvæðinu í kringum JFK International Airport búa um 400.000 manns.

 

IMG_0110Það sem helst glepur augað fyrir mannvirkja áhugavitleysing eins og mig eru hin geðveikislegu mannvirki sem alls staðar ber fyrir augu. Risavaxnar brýr, Skýjakljúfar, Sigubogar og listaverk út um allt.

En umferðin maður... Hjálpi mér Frigg og Freyja. Þegar ekið er inn á Manhattan frá Queens (úr austri) er farið eftir stofnæðum yfir brýr. Þær stofnæðar eru frá 2-4 akreinar, þar er brjálæðislega þétt Jólaumferð og meðalhraðinn 110km/h. Þar er eins gott að hafa Garmin leiðsögutækið til að hjálpa sér að rata, því tíminn sem maður hefur til að ákveða hvaða leið maður ætlar að taka er yfirleytt frekar stuttur.

 

IMG_0114Eitt af því sem hægt er að gera á svona "rauðum" dögum er að fara í söfn og þessháttar. Við Smári ákváðum að skella okkur upp í Empire State bygginguna, en hún er rúmlega 300 metra há.

Það er gjörsamlega óviðjafnanlegt að vera innan um hús sem eru svo há að Hallgrímskirkja og hús verslunarinnar yrðu bara kjánaleg þarna.

Á þessari mynd blasir við hin stórglæsilega Empire State bygging. Hún gjörsamlega gnæfir yfir allt. Það kostar $15 að fara upp á hæð 86, en $18 til viðbótar upp á hæð 102 sem er efsta hæðin, og öryggiseftirlit er svipað og á flugvöllum, þannig að maður þarf að þola um 45 mínútur í biðröðum, sem er ekkert mál.

IMG_0124Við létum að sjálfsögðu Garmin tækið finna fyrir okkur bílastæðahús sem næst 34. stræti þar sem Empire State er. Þar var tekið við bílnum við innganginn og starfsmen sáu um að koma honum í stæði. Mjög þægilegt.

Það kemur þó á óvart hvað sóðaskapurinn og niðurnýðslan er mikil þarna. Þessi mynd er tekin í 35. stræti við hliðina á Empire State. Strax í þessari götu er allt frekar ógeðslegt og hlandlykt hér og þar á meðan 34. stræti er svona Sex and the City gata. Allt í marmara, gulli og kristöllum.

 

IMG_0129Þegar við vorum komnir upp fórum við út á svalir sem ná allan hringinn. Það var alveg magnað að það var logn þarna uppi. Maður rétt hættir sér upp á Perlu á sólskynsríkum ágústmorgni, og þar er hávaðarok.

Þetta er nokkuð sem allir ættu að prófa. Það er fáránlegt að horfa niður á 200 metra háa turna. maður fílar sig eins og í einhvernnskonar loftfari, því þetta er hálf óraunverulegt. Svipað og þegar maður er efst í Eiffel turninum í París.

Smári var ekkert of spenntur fyrir að fara upp fyrst um sinn þar sem honum fannst þetta ekkert mjög merkilegt, en það breyttist heldur betur og var hann fljótur að kunna að meta þetta. Það er eiginlega ekki annað hægt heldur.

 

IMG_0131Þessi mynd er tekin úr toppnum á Empire State byggingunni, eða af hæð 102. þar er gler fyrir gluggum og farið upp með sér lyftu sem er sennilega jafn gömul húsinu. Þar er lyftuvörður sem stýrir lyftunni með eihvernskonar sveifarhjóli.

Þá skal það tekið fram að tvíburaturnarnir World Trade Center voru 100 metrum hærri en Empire State byggingin, eða rúmir 400 metrar að hæð.

Nú stendur til að byggja einn skýjakljúf þar í stað tvíburaturnanna, en sá verður um 400 metrar að hæð.

 

IMG_0136Dökkar filmur eru á glerinu á 102 hæð, en þær draga úr lofthræðsluáhrifum. Við vorum hálf fúlir yfir þessu filmuveseni. Það að horfa út um svona dökkar rúður gerir það að verkum að maður fær á tilfinninguna að maður sé að horfa á skjá.

Ég myndi helst vilja hafa þetta opið. Þetta er svo hrikalegt að það er eins gott að fá öll áhrifin ef maður er að þessu á annað borð. Lofthræddir geta bara verið annarsstaðar.

 

 

IMG_0161

við gengum niður að World Trade Center svæðinu. Þarna er ég við skiltið þar sem gengið er niður í járnbrautina. 

Það verður að segjast eins og er, að það er nokkuð magnað að ganga þarna um svæðið og ýminda sér að 400 metra háir turnarnir hafi staðið þarna, sérstaklega vegna þess að ég hef komið þarna áður fyrir mörgum árum og man vel hvernig þetta var.

Það er hræðilegt til þess að hugsa að Bandaríkjamenn hafi kallað þessar hörmungar yfir þjóðfélagið. Þess bíða þeir aldrei bætur. Svo mikið er víst. 


26.05.2007 Dagur 4. New Hampshire, Skattlausa Fylkið.

IMG_0058New Hampshire er sennilega eina skattlausa fylkið í Bandaríkjunum. Þá er ég að tala um að allar vörur eru án söluskatts. Þegar maður sér hlut í verslun, lítur á verðið, þá er það sama verð og greitt er á kassanum, en í öðrum fylkjum leggst mishár skattur ofan á verðið sem er óþolandi. það var alveg frábært að fara í Mollin þarna. Verðið yfirleytt 10% lægri en í NY auk skattaafsláttarins

Við sváfum á mjög notarlegu vegahóteli, og kostaði tveggja manna herbergi kr. 6000.- sem er afskaplega hóflegt að mínu mati. Við drifum okkur á fætur tiltölulega snemma og vorum komnir til Hjólasalans klukkan 9:15, en hann opnaði klukkan 9:00.

 

 

IMG_0065Húsið sem hann er með er um 3.000 fermetrar og aðstaðan alveg geðveik. Yfir 100 hjól á staðnum og öll uppítökuhjól frá umboðsaðilum af öllum stærðum og gerðum. Maður fær bara sjokk við að koma á svona stað. 

Í reynd er þetta svo fjarlægt okkur hér heima að það nær ekki nokkru tali. Við erum að tala um svo flotta aðstöðu að fyrirtæki eins og Hekla og Toyota gætu öfundað þessa menn. að vísu er húsið engin höll, enda engin þörf á því. Áherslurnar eru á góðri þjónustu við kúnnan, en ekki glæsilegri yfirbyggingu og sölumönnum með heimskuleg bindi og innantómar yfirlýsingar.

 

 

IMG_0067Fljótlega kom ég auga á hjól sem mig langaði að kaupa. Um var að ræða alveg stórglæsilegt Buell XB9R sem er í raun eins konar Racer með Harley Ferguson mótor. Sem sagt tveggja strokka loftpressa í kappaksturshjóli. Alger snilld.

Við vorum búnir að sjá sambærileg hjól víða annarsstaðar, en þetta náði að glepja augað, ekki síst vegna þess hve töff það er svona gult á litinn. 2005 árgerð, og nánast óekið.

 

 

 

IMG_0070Næsta hjól sem við ákváðum að kaupa var Harley Davidson Soft Tail custom árgerð 1999. Þvílíkt glæsilegt hjól og algerlega óaðfinnanlegt í alla staði, enda ekið innan við 10.000 km.

Við létum taka frá þessi hjól svo enginn hlypi í skarðið og næði einhverju af okkur. Það var svo merkilegt að eigandinn ákvað að treysta okkur svona vel og tók hjólin frá án þess að láta okkur svo mikið sem skrifa nöfnin okkar á blað. Ég hef reyndar keypt hjól þarna áður og hann veit svo sem hvar hann hefur mig.

 

 

IMG_0092Næst tókum við frá eitt stykki Suzuki Intruder 800 árgerð 2006, ekið aðeins 4.000 mílur. Hjólið er svo fallegt að það er eins og það hafi komið úr umbúðunum frá verksmiðjunni fyrir viku.

Við kolféllum fyrir hjólinu þó það væri nokkuð hátt verð sett á það. Því er óvíst hvort það hafi verið gáfulegt að taka það með, en öllu gamni fylgir víst einhver alvara, svo það má einnig segja að öllum viðskiptum fylgir einhver áhætta. Og við erum tilbúnir að mæta henni.

 

 

IMG_0095Þegar þarna var komið við sögu var langt liðið á daginn enda margt að skoða, mörg skjöl að fara yfir, mikið að reikna og hringja, ásamt því að liggja yfir netinu og bera saman.

Við bættum á okkur einum Harley Ferguson (Sportster) svona til að fylla upp í daginn, en það var búið að ganga frá greiðslu á því hjóli frá Íslandi áður en við fórum af stað. Við staðfestum bara við söluaðilann að við tækjum það með okkur til Íslands ásamt hinum hjólunum.

 

 

IMG_0099

Að góðum degi liðnum kvöddum við og komum okkur í ró. Á þessari mynd eru þeir Smári félagi minn og Jeff sem þjónustaði okkur þarna á staðnum. Jeff er einhver þjónustulundaðasti náungi sem ég hef hitt á æfinni, enda Írskur frændi okkar sé kafað í ættir hans.

Hann lánaði okkur nettengda tölvu með Excel til  eigin afnota, hellti upp á kaffi eftur pöntunum og gerði gjörsamlega allt sem okkur gat verið til þægðar og hentugleika, nema kannski að nudda á okkur axlirnar. Að vísu reyndi ekki á það.

 

 

 

IMG_0100Hvað er betra að loknum góðum degi en að skella sér á Hooters og fá sér góðan borgara. Eins og ég gat hér áður, þá er ekki mikið af ljótum stelpum á Hooters og eru þær að sjálfsögðu klæddar í samræmi við eigið ágæti.

Við fórum semsagt á Hooters í Pembroke sem er miðsvæðis í New Hampshire, en svæðið er ekki mjög þéttbýlt svo við þurftum að keyra slatta suður á bóginn til að finna þennan stað.

Stúlkan sem þessi mynd er af er til dæmis afskaplega andlitsfríð og hefur eins og sést margt fleira til brunns að bera. Kannski full mikið klædd að mínu mati.

 

IMG_0103Svo datt andlitið af mér. Ég sá allt í einu manneskju sem ég kannaðist svona líka mikið við. Þarna var hún Guðrún Ólafsdóttir vinkona mín mætt í vinnu á Hooters, en bara einum og hálfum áratug yngri en hún í raun er í dag.

Þetta hljómar kannski undarlega, en þessi stúlka sem heitir Christal er alveg nauðalík Guðrúnu, og það getur fólk sannreynt með því að bera þær saman, því Guðrún er ein af mínum bloggvinum og kallar sig Bellaninja. Afskaplega fallegar stelpur, og skemmtilegar með afbrygðum.

Flott fyrir kærastann hennar Guðrúnar að hafa það í bakhöndinni að geta yngt upp svona við tækifæri.

 

IMG_0105Við þrumuðum Suðureftir enda ekki eftir neinu að bíða, og ókum við um 400 km í einum rykk. Þegar við komum til New Haven sem er nyrst í New York fylki létum við Garmin tækið leita að gistingu. Það eina sem var fýsilegt í stöðunni var Holiday Inn, og var það reyndar mjög fýsilegt þar sem 2 manna herbergi kostaði ekki nema $120.00.-

Við sváfum mjög vel þessa nótt, enda alveg drulluþreyttir eftir langan og strangan dag.

 

 

 

 

 


25.05.2007 Dagur 3. Haldið norður og niður.

09 Þetta líka fína herbergiVið vöknuðum snemma eins og endranær á sveitahótelinu, og hvílík sæla. þegar við komum út um klukkan 8:20 var kominn 24 stiga hiti og glampandi sól. Fuglasöngur, sauðkindur á beit, og ekki hægt að hafa það betra í vorblíðunni. Svo mikið er víst. Herbergið var rúmgott eins og oft er á þessum hótelum, og 2 Queen Size rúm.

 

 

 

10 Nýji Garmin-innÉg skellti Garmin Navigation Satelite Roadmate Never-Lost tækinu á spegilinn í herberginu og fór að æfa mig. þar sem ekki náðist samband við gerfihnött þar, þá virkaði tækið að mjög takmörkuðu leiti á speglinum.

Þessi tæki eru nauðsynleg í svona ferðum. Tækið þekkir nánast öll heimilisföng jarðarinnar, Veitingastaði, Gistirými, Bensínstöðvar, Flugvelli, Verslunarmiðstöðvar og svo má lengi telja. Maður stimplar bara inn þann stað sem maður vill finna eftir nafni eða heimilisfangi, og svo leiðir tækið mann upp að dyrum, og talar meira að segja við mann.

Í tækinu er MP3 spilari, Bluetooth sendir sem þýðir að þú getur notað tækið sem handfrjálsan búnað við símann þinn og margt fleira.

 

11 Yamaha Roadstar 1600Við drifum okkur á þeysispretti áfram norðureftir þegar allt var klárt, og ekki leið á löngu þar til við sáum geysifallegt Yamaha Roadstar 1600 í kantinum. Það var gríðarlega flott, en vantaði talsvert upp á verðið, en það var boðið á alveg fáránlega háu verði. Það gengur tæplega upp að fara að tapa á þeim hjólum sem maður kemur með.

 

 

 

12 Cadillac Blæjubíll á 500þSvo þegar við komum til svæðisins sem við ætluðum að skoða, þá rákumst við á einn sem var með nokkur hjól og nokkra bíla. Hann var meðal annars að selja þennan Cadillc í toppstandi. Verðmiðinn á þessu tryllitæki var ekki nema um 500.000.-

Ef ég byggi í Bandaríkjunum, þá er alveg á hreinu að ég myndi þurfa að aka um á svona bíl. Þetta er sko spurning um typpaslag, ekki hagkvæmni, enda borgar hún sig ekki. Þá eignast maður aldrei svona bíl.

 

 

15 Smári að máta Harleyinn hans OfurBaldursVið drifum okkur svo enn lengra og heimsóttum 2 aðila þennan dag. Annar selur tjónahjól og hinn uppítökuhjól frá umboðsaðilum á svæðinu.

Aðstaðan hjá þessum piltum er ekkert venjuleg og eru húsnæðin sem þeir hafa yrir að ráða mörg þúsund fermetrar að stærð. Á þessair mynd er Smári sestur á Harley FXDL tjónahjól sem við keyptum á staðnum. Húrra. Búnir að kaupa hjól.

 

 

 

14 Harley Ferguson í StandsetninguHér erum við svo komnir enn norðar. Hér sést verkstæðisaðstaðan nokkuð vel hjá þessum aðilum. Á þessari mynd er eigandinn að prófa Harley Davidson Sprortster (sem ég kýs að kalla Harley Ferguson) sem hann seldi þennan morgun að lokinni standsetningu. 

Margar lyftur eru þarna fyrir mótorhjól, nokkur hundruð hjól á staðnum og viðmótið eins og við séum landshöfðingjar. Þó er eitt, og það er að kanarnir eru ekki eins miklir kaffidrykkjumenn og við Íslendingar.  Maður finnur hvergi sjálfvirkar kaffivélar fyrir kúnna, og það er hreinlega eins og þeir drekki varla eða ekki kaffi, því alltaf þegar maður minnist á hvort til sé kaffi, þá er rokið til og hellt uppá.

 


24.05.2007 Dagur 2. Nýr bíll og haldið í mótorhjólabúðir.

03 Smári í BestBuy með vefmyndavélVið vöknuðum frekar snemma, eða um klukkan 7:30. Fengum okkur að borða og drifum okkur út í sólina. Við byrjuðum á að fara í tölvubúð sem heitir Best Buy til að kaupa fartölvu og til að kanna hvort við fengjum þokkalegt GPS tæki á viðunandi verði til að þurfa ekki að vera með tæki á leigu. Þetta tókst allt giftusamlega.

 

 

 

04 OfurBaldur á HootersVið drifum okkur um 13:30 á veitingastað sem heitir Hooters. Þessir Hooters staðir eru alveg frábærir. Þar eru starfsstúlkurnar ráðnar til vinnu eftir mæramáli og sólskinsbrosi, og eru gefin ströng frávik frá stöðlum. Útgeislun þeirra er mæld í Candela.

Meðal þeirra krafna sem til þeirra eru gerðar eru eftir því sem mín enskukunnátta kemst næst eftirfarandi:

Þær skulu hafa lipran limaburð, létt göngulag og gönguhraði skal vera sem næst 500 mm/sek. Prófanir á sveigjanleika og formfestu skulu gerðar eftir ASTM-staðli D790, en það er sami staðall og notaður er við ráðningar á flugfreyjum á Íslandi.

Litarfesta andlita skal standast 7.200 sekúndna Álag við allt að 35°C hita, 800 til 1200 millibar loftþrýsting og 30-80% rakastig.

Þær skulu vera broshýrar með afbrigðum til umhverfisins, og ljómi skal streyma frá ásjónu þeirra og fasi. Ljóminn mælist í candela og skal vera minnst 25 candela, þegar þreytan er sem mest.

Þær skulu tala gott mál, framsögn skal vera áheyrileg og þýð. Raddstyrkur skal vera um 50 dB og tónsvið 300-700 HZ. Raddstillingar skulu gerðar samkvæmt ISO Recommendation R16, en það skal tekið fram að tónlist er spiluð inni á Hooters stöðunum, og verður rödd stúlknanna að heyrast í gegnum tónlistina þegar beðið er um bjór.

Þegar talað er um frávik frá stöðlum er til dæmis horft til þess að þær meiga hafa stærri brjóst en staðallinn segir til um og minni mjaðmir. Það segir sig eiginlega sjálft.

 

05 Smári að meta nokkrar HondurÞvínæst heimsóttum við hjólasala í New York sem selur mikið af notuðum hjólum. Í sjálfu sér var hann ágætur, en hann átti hjólin sjálfur en var ekki að selja fyrir aðra, svo hann var ekki til í að gefa afslátt þrátt fyrir að mörg hjól yrðu keypt.

Hjólin hans voru allt of dýr. Þetta var engu að síður vel þess virði, því þarna vorum við strax komnir með viðmiðun.

 

 

 

06 Þessi Yammi kostar tæpar 4 millur.

Þá fórum við upp í Collage Point hverfið þar sem aðili selur tjónuð hjól. Ég hef áður keypt af þeim aðila og er hann mjög traustur. Hann er með nokkra kalla í vinnu hjá sér og er hann meðal annars að smíða og breyta hjólum. Aðallega Racerum. Hann var þarna með einn gulan 1400 Yamma sem hann var búinn að eyða um 2 milljónum í að breyta fyrir einstakling. Brjálað hjól.

Þarna voru nokkur hjól sem okkur leist vel á, en svo ákváðum við að aðhafast ekkert þar fyrr en við værum búnir að aka norður í land og sjá hvað þar væri í boði. Collage Point hverfið er frekar vafasamt, en það sleppur á daginn. Ég myndi ekki þvælast þar að óþörfu að kvöldi til, og kalla ég nú ekki allt ömmu mína.

 

08 Dodge CaravanÞegar klukkan var orðin 17:30 drifum við okkur út á flugvöll í Avis bílaleiguna til að láta þá hirða þessa bölvuðu bíldruslu sem við vorum svo óheppnir að sitja uppi með í heilan sólahring. Við vildum einfaldlega bara fá almennilegan bíl. Það tók okkur 2,5 klukkutíma að komast þangað vegna umferðarþunga.

Við fengum Dodge Caravan í staðinn, og hjálpi mér Heimdallur.... Hvílíkur munur. Maður fær ekki einu sinni hryggskekkju við að aka yfir brunnlok. Hvílíkur bíll. Ég sá sæng mína útbreidda í þokukenndum dagdraumum þegar ég hugsaði til þess að fara á þessari súldar-jeppa-druslu 500 kílómetra á einum degi. Nú var það allt í einu orðið tilhlökkunarefni. Það lá við að við færum aftur á Hooters, bara til að halda upp á að vera komnir með almennilegan bíl.

 

 

07 Alveg hrikaleg mannvirkiVið þrumuðum svo bara norðureftir á öfgahraða, brosandi hringinn eins og við værum komnir á Stelth orustuþotu. Slík var ánægjan af ferðinni. Hefðum við ekki verið með eyru hefðum við eflaust farið langt með að brosa hringinn. Og hvílík mannvirki maður. lestarbrýrnar gnæfandi yfir hraðbrautunum og svo margt annað. það er allt svo stórt í Ameríku.

Við fórum á gistiheimili sem er við fylkismörk Conecticut og New Hampshire og fengum þar prýðisgistingu á fallegum stað, rétt við hraðbrautina. Þökk sé Garmin GPS tækinu sem þekkir svo til öll gistirými jarðarinnar.


23.05.2007 Fyrsti dagur... ferðin út.

01 Toyota-DruslanVið semsagt drifum okkur út til hennar Ameríku á miðvikudaginn þann 23. maí og lentum á JFK flugvelli í New York City um klukkan 18:00 að staðartíma. Þá var klukkan á Íslandi orðin miðnætti. Það tók okkur ekki nema tæpan klukkutíma að komast í gegnum flugvallareftirlitið og inn í Bandaríkin.

Við fórum beint að fá okkur bílaleigubíl og þurftum að sætta okkur við einhverja japanska druslu að gerðinni Toyota Rav4 og vorum ekki sáttir. Við vorum ekki að fara til Ameríku til að aka um á einhverri Toyotadruslu. Svo mikið er víst.

 

 

02 Smári að stilla GPS tækiðVið vorum með Garmin GPS tæki í láni, en þegar við hófum að nota það var það annaðhvort með læstu Ameríkukorti fyrir annað tæki eða með engu Ameríkukorti. Bara Evrópu og Íslandi. Svo ég varð að hlaupa inn og leigja tæki af Avis svo við kæmumst yfirleitt úr sporunum.

Við byrjuðum á að ýta á takka sem á stendur "Lodging" en það þýðir víst Gisting. Tækið leiddi okkur á þetta líka fína gistiheimili í Jamaica hverfinu sem er sæmilega öruggt fyrir hvíta ferðamenn. Queens hverfið er þarna við hliðina, og ég var varaður við að vera mikið að þvælast þar.

Þarna gistum við fyrstu nóttina og fórum að sofa rétt fyrir miðnætti.


Ameríkuferð OfurBaldurs og Smára í Bifhjólaleit.

Jæja, Eins og margir vita, þá er ég staddur ásamt Smára vini mínum í Bandaríkjunum að svo stöddu. Við lögðum land undir fót til að kanna hvort eitthvað vit er í að kaupa mótorhjól hér ytra, og selja þau á Íslandi.

Ég kemst ekki á Internetið á hverjum degi svo þetta verður svolítið stopult, en ég ætla að skrifa hvenær sem færi gefst. Hér kemur svo ferðasagan.


Ég gef skít í Eurovision

Þetta er nú orðið algert reginhneyksli. Við vorum með gjörsamlega langbesta vinnings-líku-lag sem hefur verið sent í þessa Guðs-Voluðu-Keppni til þessa... nei kannski ekki alveg, en fínt lag þó.

Ég er á því að við eigum að stofna eigin keppni með hinum vestur evrópuþjóðunum sem hlusta á svipaða tónlist og við. Tónlistasmekkur þessara austantjaldsþjóða er svo gjörólíkur okkar tónlistasmekk að það er spurning hvort við vestur-evrópuþjóðirnar eigum enn erindi í þessa keppni sem við stofnuðum og mótuðum öll þessi ár.

Ég tek udir með Eiríki Haukssyni, og ég ætla að kjósa núna í fyrsta sinn í Eurovision, og ég mun annað hvort kjósa Svía eða Finna, þó ekki væri nema til að leggja mitt á vogarskálarnar og vega upp á móti hinni nýðþungu austantjaldsblokk.aaaaaaaaaaaa


Furðulegt að Vesturlönd skuli ekki aðhafast neitt í sambandi við Mugabe.

Þetta er með ólíkindum. Það er hægt að ráðast inn í Afganistan og Írak þegar olíuhagsmunir eru annarsvegar. Þá er hægt að réttlæta slíkar aðgerðir með því að þjóðarleiðtogar slíkra ríkja hafi unnið glæpi gegn mannkyninu með fjöldamorðum eða með því að hryðjuverkaógn stafi frá þessMugabeum ríkjum.

En þegar Olía er ekki í dæminu virðist aldrei vera ástæða til aðgerða. Mugabe murkar lífið úr hundruðum manna á degi hverjum og stjórnvöld í Evrópulöndum og Bandaríkjunum láta fréttir þaðan um látlaus mannréttindabrot sem vind um eyru þjóta.

Það virtist ekki vera mikið mál hjá stjórnvöldum á Íslandi að skrá okkar land á lista yfir viljugar þjóðir til að þreyta stríð gegn Írak og Saddam Hussein. En að Íslensk stjórnvöld lifti litla fingri í þágu almennigs í Zimbabve virðist ekki vera í sjónmáli.

Mugabe er hræðilegur þjóðarleiðtogi. Hann murkar lífið úr saklausu fólki, þjarmar að öllum sem ekki hafa sömu skoðanir og hann og það er skömm fyrir Íslensk stjórnvöld að ekki sé unnið í því fyrir alvöru að koma þessu skrímsli frá völdum. Hann er ekkert annað en það sem Idi Amin var og stóð fyrir. 


mbl.is Mugabe hótar kirkjuleiðtogum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Lóðaverð á kostnaðarverði...

Það var fróðlegt að heyra fréttir í vikunni þar sem talað var um að lóðir í Reykjavík yrðu seldar á kostnaðarverði.

Samkvæmt Fétt á Vísi.is frá 28. apríl verða lóðirnar í nýju hverfunum á föstu verði, 11 milljónir króna fyrir einbýlishúsalóð, sjö og hálf milljón fyrir lóð undir raðhús eða parhús og fjórar og hálf milljón á hverja íbúð í fjölbýli.

þá virðist ekki skipta máli hve hátt fjölbýlishúsið er og hve margar íbúðir á grunnflöt, hvort um er að ræða hús með bílastæðum eða bílakjallara eða hve stórar íbúðirnar meiga vera í viðkomandi fjölbýlishúsi.

Þó er það svo að fyrir aðeins 8 árum var hægt að kaupa lóð í Reykjavík undir einbýlishús á 4 milljónir og var þá ekki talað um kostnaðarverð, heldur fullt lóðaverð. Mörg bláfátæk byggðalög úti á landi bjóða lóðir ókeypis og önnur fyrir 1-2 milljónir með öllu.

Það væri nú óskandi að bæjarfélögin hér á höfuðborgarsvæðinu færu að bjóða fólki lóðir á kostnaðarverði. Ég hef nú lúmskan grun að menn noti ekki alltaf sömu aðferðir við að finna út kostnaðarverð. 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband